Færsluflokkur: Evrópumál
6.4.2012 | 07:53
Evrópusambandið og atvinnuleysi
Gjarnan er því haldið fram, að innan Evrópusambandsins sé að finna ávísun á stórfellt atvinnuleysi. Oftar en ekki er minnt á Spán í þessu samhengi, en atvinnuleysi á þeim bæ nálgast nú jafnvel fjórðung atvinnubærra, sem auðvitað er sorglegt. Hugsa sér hvað þessi fjórðungur gæti lagt fram í þjóðarbúskapinn.
Það er hins vegar alrangt að tengja atvinnuleysið á Spáni við Evrópusambandið.
Atvinnuleysi hefur, því miður, alla tíð verið mjög mikið á Spáni og verið bæði árstíðabundið og tengt ýmsum lýðfræðilegum þáttum. Þetta má m.a. lesa úr gögnum OECD.
Áður en Spánverjar gengu í ESB (1986), var einnig gífurlegt atvinnuleysi. Enn meira en opinberar tölur gáfu til kynna m.a. vegna þess að fyrirtæki voru oft á tíðum yfirmönnuð.
Á tímabili rétti úr kútnun, ekki síst vegna framkvæmda við byggingar. Á Spáni varð eignarbóla, rétt eins og á Íslandi,og þar með mikið fjör í byggingariðnaðinum.
Atvinnuleysið minnkaði enda mikið fram til 2008. Svo kom Hrunið, á Spáni eins og á Íslandi.
Nú er við frostmark í byggingariðnaðinum á Spáni. Minnir það ekki á Ísland?
Atvinnuleysið á Spáni, frekar en Íslandi, er ekki hægt að rekja til aðildar að Evrópubandalaginu. Þar er um aðra þætti að ræða.
Þvert á móti er auðvelt að leiða líkum að því gagnstæða. Evrópusambandsaðild hefur reynst Spánverjum notadrjúg við uppbyggingu iðnaðar í víðtækum skilning.
Það blæs á móti nú um stundir vegna fjármálakreppu á alheimsvísu og óábyrgrar skuldasöfnunar og hagstjórnar í Evrópu - og þar með talið Íslandi.
Að tengja þessar hamfarir við Evrópusambandið er bæði rangt og villandi.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)