Forseti í aldarfimmtung?

Forsetinn, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur átt fína spretti í embættinu og hann stóð sig líka oftast ágætlega þegar hann gegndi embætti fjármálaráðherra forðum. Með fullri virðingu fyrir honum skynja ég samt að komin sé þreyta meðal fjölmargra eftir sextán ára valdatíð hans. Verði hann endurkjörinn og vermir forsætið í aldarfimmtung verður hann vonandi ekki nefndur “Robert Mugabe norðursins”.

Þegar Ólafur tilkynnti seint og síðar, að hann gæfi kost á sér til embættisins, nefndi hann átök um fullveldismál, sem flestir hafa túlkað sem andstöðu við inngöngu í ESB. Jafnvel andstöðu við að kosið verði um málið í lýðræðislegum kosningum. Þá nefndi hann óvissu um stjórnarskrána og stöðu forsetans í henni.

Ég held að fáir kaupi raunverulega, að eitthvað sérstakt af þessu kalli á að hann sitji enn eitt kjörtímabilið. Annað hvort eða ekki kjósum við um aðild að ESB og um nýja stjórnarskrá. Þjóðin, sem forsetanum er stundum tíðrætt um, fær síðasta orðið - og þannig skal það vera.
Ég er handviss um að margir þeirra sem skrifuðu upp á áskorun til hans um framboð, hafi ekki gert það vegna knýjandi þarfar á kröftum hans fjögur ár til viðbótar. Til að vinna verkefni sem enginn annar gæti ráðið við. Margir vildu einfaldlega þakka fyrir vel unnin störf.

Og ég held líka að það hafi verið rétt hjá Stefáni Jóni Hafstein, sem sagði að endurkjör Ólafs Ragnars Grímssonar væri táknrænt um hið Gamla Ísland. Ég vona að Guðni Ágústsson fyrirgefi mér þó ég upplýsi, að mér fannst nærvera hans (og fleiri) á Bessastöðum þegar bænalistinn var afhentur, enn frekari staðfesting á orðum Stefáns.

Fjölmargir vilja Nýtt Ísland. En einhvern veginn tekst okkur ekki að fóta okkur á því, hvað í því felst. Við togum enn hvert í sína áttina. Ósættið er mikið og framganga fulltrúa okkur á Alþingi ömurleg (kannski með örfáum undantekningum). Ríkisstjórnin margklofin, þar sem sárvantar markvissa verkstjórn og forgangsröðuna á viðfangsefnum. Höfum við ekkert á hruninu, aðdraganda þess og afleiðingum, lært? Jú, ég held það. En okkur vantar að koma þeim lexíum í farveg, þannig að þær nýtist okkur í framtíðinni, en ekki síst að ná sæmilegum sáttum í þjóðfélaginu. Koma okkur upp úr skotgröfunum.

Í þessum efnum hefur forsetinn stóru hlutverki að gegna. Það er mikilvægara nú en oftast áður, að forsetinn sé allrar þjóðarinnar. Að forsetinn sameini ólík viðhorf og misjafna þjóðfélagshópa.

Mér fannst Ólafur Ragnar Grímsson segja okkur með æði og athöfnum, þegar hann tilkynnti framboð sitt, að hann ætlaði sér ekki að verða forseti þjóðarinnar allrar, þó svo hann næði kjöri.

Allt þetta kallar á fleiri valkosti til embættis forseta. Og því ber að fagna nýjum og spennandi framboðum. Markverðustu framboðin, þegar þetta er ritað, eru Þóru Arnórsdóttur og Herdísar Þorgeirsdóttur, fyrir utan forsetann sjálfan. Aðrir núverandi frambjóðendur hafa ekki raunhæfa möguleika, en kannski eiga fleiri og spennandi framboð eftir að koma fram.

Þóra virðist hafa ákveðið forskot, sem hún má ekki síst þakka veru sinni í sjónvarpi. Ég held að ungur aldur hennar (rétt orðin kjörgeng) muni hjálpa henni, ekki síst gagnvart þeim sem finnst kjör hennar geta orðið táknrænt fyrir Nýtt Ísland.

Frambjóðendurnir eiga eftir að kynna sjónarmið sín og sig sjálfa miklu betur. Áður en afstöðu verður hægt að taka. Ég hlakka til að kynnast þeim og á þeim grundvelli, ákveða hvern ég kjósi.

En nú ætla ég að leyfa mér að spá því að breytingar séu framundan á Bessastöðum og búskaparháttum þar.

Mér finnst líklegt að núverandi forseti hafi tiltölulega fast fylgi, um þriðjung atkvæða. Flestir þessara munu kjósa hann hvernig sem tautar og raular. Aðrir frambjóðendur hafa líka fast fylgi, en það er nú langtum minna en það sem Ólafur Ragnar getur státað af. Vandamál hans er hins vegar að stór hluti tveggjaþriðju kjósenda vilja einhvern annan valkost sem forseta.
Atkvæðin munu dreifast á frambjóðendur með ýmsum hætti, en á lokasprettinum mun sá frambjóðandi sem líklegastur er til að fella Ólaf Ragnar, draga til sín atkvæði frá þeim frambjóðendum sem eftir fylgja - og sigra.

Evrópusambandið og atvinnuleysi

Gjarnan er því haldið fram, að innan Evrópusambandsins sé að finna ávísun á stórfellt atvinnuleysi. Oftar en ekki er minnt á Spán í þessu samhengi, en atvinnuleysi á þeim bæ nálgast nú jafnvel fjórðung atvinnubærra, sem auðvitað er sorglegt. Hugsa sér hvað þessi fjórðungur gæti lagt fram í þjóðarbúskapinn.

Það er hins vegar alrangt að tengja atvinnuleysið á Spáni við Evrópusambandið.

Atvinnuleysi hefur, því miður, alla tíð verið mjög mikið á Spáni og verið bæði árstíðabundið og tengt ýmsum lýðfræðilegum þáttum. Þetta má m.a. lesa úr gögnum OECD.

Áður en Spánverjar gengu í ESB (1986), var einnig gífurlegt atvinnuleysi. Enn meira en opinberar tölur gáfu til kynna m.a. vegna þess að fyrirtæki voru oft á tíðum yfirmönnuð.

Á tímabili rétti úr kútnun, ekki síst vegna framkvæmda við byggingar. Á Spáni varð eignarbóla, rétt eins og á Íslandi,og þar með mikið fjör í byggingariðnaðinum.

Atvinnuleysið minnkaði enda mikið fram til 2008. Svo kom Hrunið, á Spáni eins og á Íslandi.

Nú er við frostmark í byggingariðnaðinum á Spáni. Minnir það ekki á Ísland?

Atvinnuleysið á Spáni, frekar en Íslandi, er ekki hægt að rekja til aðildar að Evrópubandalaginu. Þar er um aðra þætti að ræða.

Þvert á móti er auðvelt að leiða líkum að því gagnstæða. Evrópusambandsaðild hefur reynst Spánverjum notadrjúg við uppbyggingu iðnaðar í víðtækum skilning.

Það blæs á móti nú um stundir vegna fjármálakreppu á alheimsvísu og óábyrgrar skuldasöfnunar og hagstjórnar í Evrópu - og þar með talið Íslandi.

Að tengja þessar hamfarir við Evrópusambandið er bæði rangt og villandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband